Lög

Lög Skíðafélags Strandamanna

Lög samþykkt á stofnfundi 19. nóvember 1999 með breytingum samþykktum á aðalfundi 26. apríl 2023.

1. grein: Félagið heitir Skíðafélag Strandamanna (SFS). Heimili þess og varnarþing er Strandabyggð. Félagið er aðili að Héraðssambandi Strandamanna (HSS) og þar með Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ).

2. grein: Markmið félagsins eru að efla vetraríþróttir og útivist almennt og að gefa almenningi kost á aðstöðu og tilsögn í skíðaíþróttum og skíðaskotfimi, bæði gegn gjaldi og gjaldfrjálst. Jafnframt að stuðla að öflugu félagsstarfi og styrkja félaga til þátttöku á skíðamótum.

3. grein:  Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því að byggja upp og efla skíðasvæðið í Selárdal og gera það að álitlegum kosti fyrir móta- og námskeiðahald. Ásamt því að hvetja fólk til íþróttaiðkunar og útiveru með fjölbreyttri starfsemi.

4. grein:  Inngöngu í félagið geta allir hlotið, sem áhuga hafa á vetraríþróttum og útivist. Inntaka nýrra félaga fer fram á aðalfundi/félagsfundi, einnig má sækja um inngöngu í félagið til stjórnar.

5. grein:  Félagsgjöld skulu ákveðin á hverjum aðalfundi.

6. grein:  Félagi verður að vera skuldlaus við úrsögn úr félaginu og skal skrifleg úrsögn sendast til stjórnar.

7. grein:  a) Aðalfundur skal haldinn að vori. Aðra félagsfundi og stjórnarfundi skal halda eftir þörfum. Til aðalfundar skal boða með viku fyrirvara og dagskrá kynnt. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. b) Undir liðnum “venjuleg aðalfundarstörf” í dagskrá aðalfundar skal vera: 1. Skýrsla stjórnar 2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.  3. Lagabreytingar ef við á4. Kosning stjórnar og sérnefnda fyrir næsta starfsár5. Ákvörðun um félagsgjald6. Nýskráning félaga

8. grein:  Á aðalfundi skal kosin fimm manna stjórn og tveir til vara. Einnig skulu kosnir tveir skoðunarmenn og einn til vara. Stjórnin skal skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund: formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. 

9. grein: Á vegum stjórnar skulu að jafnaði starfa þessar nefndir:
1) Mótanefnd, sem annast undirbúning og framkvæmd móta á vegum félagsins samkvæmt beiðni frá stjórn.
2) Fjáröflunar- og viðburðanefnd, til að afla félaginu fjár til styrktar starfseminni og skipuleggja einstaka viðburði samkvæmt beiðni frá stjórn.
3) Mannvirkja- og tækjanefnd, sem hefur umsjón með viðhaldi og framkvæmdum í skíðaskála og á útisvæði ásamt umsjón með tækjabúnaði.Í hverri nefnd skulu að jafnaði vera þrír menn kosnir á aðalfundi eða tilnefndir af stjórninni.

10. grein:  Reikninga félagsins skal leggja fram á aðalfundi, eftir að kjörnir skoðunarmenn hafa farið yfir þá. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

11. grein:  Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Til lagabreytinga þarf 2/3 hluta atkvæða fundarins.

12. grein:  Ákvæði um félagsslit: Hætti félagið störfum skulu eignir þess renna til Héraðssambands Strandamanna. 

13. grein: Kjörnir fulltrúar, þjálfarar, leiðbeinendur og foreldrar á vegum félagsins er ætlað starfa eftir siðareglum ÍSÍ sem í gildi eru hverju sinni. 
Leit