Fréttaskot
Skíðaskotfimi er blanda af skíðagöngu og skotfimi og fer áhuginn á þessu nýja sporti á Íslandi sívaxandi. Fólk á Ströndum hefur löngum verið talið nýjungagjarnt fólk og til í flest, svo mátti síðar deila um hversu gáfulegar nýjungarnar voru. Við hjá Skíðafélagi Strandamanna tökum þessu nýja skíðasporti af heilum hug.
Skíðaskotfimi er blanda af skíðagöngu og skotfimi og fer áhuginn á þessu nýja sporti á Íslandi sívaxandi. Fólk á Ströndum hefur löngum verið talið nýjungagjarnt fólk og til í flest, svo mátti síðar deila um hversu gáfulegar nýjungarnar voru. Við hjá Skíðafélagi Strandamanna tökum þessu nýja skíðasporti af heilum hug. Við keyptum s.l. vetur fjórar notaðar laserbyssur og tilheyrandi skotmörk. Áhuginn fór fram úr björtustu vonum meðal þeirra sem mættu á kynningar hjá okkur. Fólk á öllum aldri, frá barnastarfinu okkar upp í félag eldri borgara fannst þetta stórskemmtileg viðbót við félagsstarfið. Síðasta sumar fórum við með byssurnar á Landsmót 50+ í Stykkishólmi og á Unglingalandsmótið á Sauðárkróki. Þar tóku þátt um 150 þátttakendur og skiptist nokkuð jafnt milli mótanna.
Í haust var svo tekin ákvörðun um kaup á fjórum nýjum .22 kalibera markrifflum sem við höfum nú fengið afhenta. Það er víst ekki nóg að eiga rifflana heldur þarf að kaupa skotmörk líka og bíðum við eftir að fá þau send til landsins. Þriðja fjárfestingin okkar þessu tengdu eru svo færanlegar skíðabrautamerkingar sem við fáum afhentar á næstu dögum. Þessar nýju brautamerkingar eru fyrir löngu tímabærar og geta nýst okkur í öllu okkar starfi á skíðasvæðinu; á æfingum, námskeiðum og mótum. Einnig geta þær nýst í öðrum íþróttagreinum allan ársins hring.
Þetta er gríðarlega stórt verkefni fyrir lítið félag og þrjár stórar fjárfestingar sem telja í milljónum króna. Við munum þurfa að safna fyrir þessu öllu saman og vonumst til góðra undirtekta hjá okkar velunnurum þegar þar að kemur. Framundan er sala á auglýsingum á skilti við marksvæðið, skíðaskotfiminámskeið og mót og fleira skemmtilegt. Við tökum þakklát og auðmjúk við frjálsum framlögum á reikning skíðafélagsins, 1161-05-400178, kt 510100-2120.