Fréttaskot
Skíðafélag Strandamanna átti sex áhugasama þátttakendur á þjálfaranámskeiði sem SKÍ bauð upp á.
Skíðasamband Íslands bauð upp á þjálfaranámskeið í skíðagöngu dagana 6.-7. janúar 2024. Skíðafélag Strandamanna átti sex áhugasama þátttakendur, þau Hjalta Helgason, Þóreyju Dögg Ragnarsdóttur, Lindu Jónsdóttur, Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur, Kristbjörgu Helgu Ingvarsdóttur og Stefán Snær Ragnarsson. Er þetta námskeið sérgreinahlutinn af Þjálfari 1 sem er þjálfaramenntun á vegum Íþrótta og ólympíusambands Íslands. Kennari á námskeiðinu var Kristján Hauksson frá Ólafsfirði, Kristján er formaður Skíðafélags Ólafsfjarðar, reynslumikill keppnismaður í skíðagöngu og með mikla reynslu af skíðagönguþjálfun og kennslu á skíðagöngunámskeiðum. Okkar fólk er gríðarlega ánægt með námskeiðið og hrósar kennaranum fyrir frábæra leiðsögn. Þeim fannst námskeiðið mjög fróðlegt og skemmtilegt og margt nýtt bættist við í reynslubankann sem þau eru spennt fyrir að koma með á æfingarnar hjá okkur.